Daniele De Rossi, stjóri Roma, var ekkert of kátur með tvo leikmenn liðsins eftir leik gegn Cagliari sem vannst 4-0.
De Rossi var ósáttur með þá Romelu Lukaku og Leandro Paredes en sá síðarnefndi nældi sér í óþarfa gult spjald í viðureigninni.
Lukaku var í rifrildum við varnarmanninn Yerry Mina og ákvað Paredes að stíga inn í og fór yfir strikið í deilum við Nahitan Nandez.
De Rossi var ósáttur með leikmennina tvo og þá sérstaklega því lið hans var að vinna leikinn sannfærandi.
,,Ég er alveg fyrir það að leikmenn komi liðsfélögum sínum til varnar en þeir þurfa að nota hausinn,“ sagði De Rossi.
,,Við þurfum að passa svona hegðun því að fá spjald fyrir þetta þegar þú ert 4-0 yfir er svo heimskulegt. Við megum ekki við því að missa þessa leikmenn í bann.“