Jose Mourinho vill ólmur snúa aftur til Manchester United samkvæmt Daily Mail.
Mourinho var rekinn frá Roma á dögunum en heimildamenn enska miðilsins segja að honum finnist hann eiga eftir óklárað verk á Old Trafford.
Verði möguleikinn fyrir hendi vill Mourinho snúa aftur til United og starfa með Sir Jim Ratcliffe og félagi hans, INEOS, sem er að taka yfir fótboltahlið félagsins.
Mourinho var stjóri United frá 2016 til 2018. Hann vann deildabikarinn og Evrópudeildina áður en hann var að lokum látinn fara.
„Honum finnst hann eiga óklárað verk eftir hvernig þetta endaði síðast og hann hefur gert það að markmiði sínu að snúa aftur,“ segir félagi Mourinho við Daily Mail.
Gengi United hefur verið langt undir væntingum en liðið er í níunda sæti ensku úrvalsdeildarinnar. Erik ten Hag er stjóri liðsins en hann er langt frá því að vera vinsæll hjá öllum stuðningsmönnum.