Billy Hogan, framkvæmdastjóri Liverpool, viðurkennir að hann hafi verið hissa þegar Jurgen Klopp tilkynnti honum að hann ætlaði að hætta sem stjóri Liverpool í lok tímabils. Hann virðir þó ákvörðun hans.
Klopp, sem hefur verið stjóri Liverpool síðan 2015, tilkynnti í morgun að hann ætlaði að hætta í lok tímabils og margir eru slegnir.
„Það er erfitt að koma því í orð hversu stór tíðindi þetta eru,“ sagði Hogan á blaðamannafundi í dag.
„Þegar Jurgen tók við talaði hann um að skila félaginu á betri stað en hann tók við því. Hann hefur án efa gert það. Þetta eru sorgleg tíðindi og ég er viss um að stuðningsmenn okkar eru á sama máli.“
Klopp vann allt sem hægt var að vinna á tíma sínum hjá Liverpool.
„Við höfum unnið saman í níu ár og þegar kollegi þinn tekur svona ákvörðun þarftu að virða hana. Ég var auðvitað hissa en vinnan og pressan sem fylgir þessu starfi, ég skil hann,“ sagði Hogan.