Thomas Tuchel lét leikmenn FC Bayern heyra það eftir tap gegn Werder Bremen í þýska boltanum um helgina en Bayern er í klandri.
Eftir að hafa unnið deildina ellefu sinnum í röð er Bayern núna sjö stigum á eftir toppliði Bayer Leverkusen.
Tuchel er í hættu á að missa starfið sitt enda er það einföld krafa hjá Bayern að vinna deildina með yfirburðum.
„Ég er orðinn svo þreyttur á því að tala um að við séum að æfa vel, það trúir mér enginn lengur,“ sagði Tuchel.
„Ég hef verið lengi í þessu starfi og get því alveg tekið það út hvernig æfingarnar eru, æfingarnar hafa verið góðar í fleiri vikur.“
Hann segir ábyrgð leikmanna mikla. „Þegar þú skrifar undir hjá Bayern þá ertu að skrifa undir það að gera allt 100 prósent. Þjálfarinn þarf að gera það, leikmenn þurfa að gera það. Við gerðum það ekki í dag.“
„Við spiluðum eins og við værum með tíu stiga forskot á toppi deildarinnar og það væri leikur í Meistaradeildinni á þriðjudag.“