Samningur Thiago Silva við Chelsea rennur út í júní og er óvíst hvað verður um leikmanninn. Stjóri Chelsea, Mauricio Pochettino, vildi lítið segja um hans framtíð á blaðamannafundi í dag.
Hinn 39 ára gamli Silva gekk í raðir Chelsea árið 2020 og hefur reynst félaginu drjúgur, vann meðal annars með þeim Meistaradeild Evrópu vorið 2021.
„Sem stendur erum við ekki að ræða við neina leikmenn,“ sagði Pochettino á blaðamannafundi.
„Við erum að vinna saman að því að bæta okkur og ná í úrslit. Leikmaðurinn og félagið verða að ákveða hvað er það besta að gera í stöðunni.“
Chelsea mætir Fulham í næsta leik sínum í ensku úrvalsdeildinni á morgun en liðið er í tíunda sæti deildarinnar.