Bróðir Omari Hutchinson, fyrrum leikmanns Arsenal, baunaði á Mikel Arteta, stjóra liðsins, eftir tapið gegn Liverpool um helgina.
Arsenal tapaði 0-2 gegn Liverpool í bikarnum og skaut bróðirinn, sem heitir Oshayne, á Arteta fyrir að nota ekki leikmenn úr unglingastarfi félagsins í leiknum. Benti hann á að Chelsea, Tottenham, Manchester City og Liverpool hafi gert það.
Arteta tefldi fram sterku liði í leiknum en það dugði ekki til.
Hutchinson fór frá Arsenal til Chelsea sumarið 2022 í leit að spiltíma en nú er hann á láni hjá Ipswich í ensku B-deildinni.
„Einhverjir skulda bróður mínum afsökunarbeiðni. Áreitið sem hann fékk fyrir að fara frá Arsenal var mikið. Vonandi sjáið þið núna hvers vegna hann gerði það,“ skrifaði Oshayne á Imstagram.
„Ég finn til með leikmönnum í yngri liðum Arsenal. Frelsið þá.“