Wayne Rooney hefði viljað meiri tíma sem stjóri Birmingham. Þetta kemur fram í tilkynningu um brottrekstur hans í dag.
Rooney tók við Birmingham í haust og þá var liðið í sjötta sæti ensku B-deildarinnar. Var John Eustace mjög óvænt rekinn til að koma Rooney að.
Undir stjórn Rooney vann Birmingham aðeins tvo af fimmtán leikjum sínum og situr nú í 20. sæti. Manchester United goðsögnin hefur því verið rekinn.
„Ég vil þakka Tom Wagner, Tom Brady og Gary Cook fyrir tækifærið til að þjálfa Birmingham og stuðning þeirra á tímanum hér,“ segir Rooney og heldur áfram.
„Fótbolti er úrslitabransi og ég átta mig á að við höfum ekki staðið okkur nógu vel. Ég tel hins vegar að tími sé það mikilvægasta sem stjóri þarf og ég tel ekki að 13 vikur hafi verið nóg til að breyta því sem þurfti að breyta.“
Rooney segir jafnframt að hann ætli nú að taka sér tíma með fjölskyldu sinni þar til hann finnur nýtt tækifæri í þjálfun.
Rooney hefur einnig stýrt Derby og DC United frá því hann lagði skóna á hilluna en á enn eftir að sanna sig almennilega í stjórastarfinu.