Wayne Rooney er ekki ánægður með leikmannahóp sinn hjá Birmingham og vonast innilega eftir styrkingum í janúarglugganum.
Rooney tók við Birmingham í ensku Championship-deildinni fyrr á tímabilinu en gengi liðsins hefur verið afskaplega slæmt undir hans stjórn.
Birmingham tapaði 3-1 gegn Stoke á dögunum og er Rooney sannfærður um að hann þurfi á nýjum leikmönnum að halda og það sem fyrst.
,,Þetta var óásættanleg frammistaða og fólk þarf að byrja að hugsa um sitt eigið stolt,“ sagði Rooney.
,,Ég set stórt spurningamerki við frammistöðuna í þessum leik því við vorum alls ekki nógu góðir og þetta eru ekki leikmenn sem ég vil nota á vellinum.“
Rooney var svo spurður að því hvort hann vildi fá nýja leikmenn í janúar og staðfesti það um leið.
,,Ég vona það innilega, það er augljóst að vandamálin eru til staðar. Við erum að skoða okkar mál. Við viljum fá inn leikmenn sem geta gert gæfumuninn.“