Það kom mörgum á óvart þegar Manchester United ákvað að semja við bakvörðinn Alexander Buttner árið 2012.
Buttner náði aldrei hæstu hæðum hjá Man Utd en hann var fenginn til félagsins eftir flotta frammistöðu með Vitesse í heimalandinu, Hollandi.
Sir Alex Ferguson, þáverandi stjóri Man Utd, tók ákvörðun um að semja við Buttner en það reyndust að lokum ansi slæm kaup.
Buttner var á leiðinni í mun verra lið í úrvalsdeildinni er umboðsmaður hans fékk símtal frá Manchester United.
,,Ég sat heima hjá mér með risastóran snakkpoka og var þar ásamt vinum mínum er ég fékk símtal frá umboðsmanninum,“ sagði Buttner.
,,Þetta var mjög skrítið því nokkrum vikum áður var ég að horfa til allt annarra liða á Englandi, Southampton, Sunderland og Queens Park Rangers.“
,,Ég ætlaði að skrifa undir hjá einhverjum af þessum liðum en allt í einu var ég á óskalista Manchester United?“
,,Ég hélt að þetta væri eitthvað grín en viku seinna fékk ég óvænt símtal frá umboðsmanninum sem sagði við mig: ‘Alex, þetta er Manchester United.’
,,Vinir mínir horfðu á mig undrandi og ég sagði að við værum á leið til Manchester. Allir misstu sig, þetta var stórkostlegt augnablik.“