Pep Guardiola, stjóri Manchester City, var ekki pirraður á blaðamannafundi eftir leik við Chelsea í ensku úrvalsdeildinni í gær.
Um var að ræða gríðarlega fjörugan leik en honum lauk með 4-4 jafntefli þar sem Chelsea jafnaði metin á 95. mínútu úr vítaspyrnu.
Mauricio Pochettino, stjóri Chelsea, tók ekki í hönd Guardiola eftir lokaflautið þar sem hann strunsaði inn á völlinn og öskraði á dómarann Anthony Taylor.
Pochettino var ekki sáttur með dómgæslu Taylor í leiknum en Man City fékk til að mynda umdeilda vítaspyrnu og vildi Argentínumaðurinn einnig fá brot dæmt á lokasekúndunum.
Guardiola virtist skilja viðbrögð Pochettino eftir leikinn og vill ekki gera neitt stórmál úr atvikinu.
,,Þetta er í góðu lagi. Tilfinningarnar spila stórt hlutverk og ég vil ekki gera stórmál úr þessu,“ sagði Guardiola.