Pep Guardiola, stjóri Manchester City, segir að fólk vilji sjá Erling Haaland mistakast í búningi liðsins.
Um er að ræða einn besta ef ekki besta framherja heims sem hefur raðað inn mörkum fyrir félagið síðan á síðasta ári. Haaland gekk í raðir Englandsmeistarana frá Dortmund og bætti markametið í úrvalsdeildinni á sínu fyrsta tímabili.
Haaland hafði ekki skorað í fimm leikjum í röð áður en hann setti tvennu fyrir Man City gegn Young Boys í Meistaradeildinni í vikunni.
Guardiola er á því máli að Haaland sé ekki vinsæll á meðal allra en varar fólk við því að ekkert muni breytast þangað til Norðmaðurinn leggur skóna á hilluna.
,,Það er alltaf mikilvægt að fá færi, fólk vill sjá hann klikka fyrir framan markið,“ sagði Guardiola við TNT.
,,Því miður fyrir ykkur þá mun þessi gæi skora mörk allt sitt líf. Hann er gríðarleg ógn fram á við. Hann mun skora mörk þar til hann hættir í fótbolta.“