Dagar Jadon Sancho hjá Manchester United virðast taldir. Það er ljóst að félagið fær ekkert nálægt þeim 73 milljónum punda sem það borgaði fyrir hann 2021 þegar hann verður seldur.
Sancho stendur í stappi við stjórann Erik ten Hag og ekki er útlit fyrir að úr því verði leyst. Englendingurinn ungi neitar að biðja Hollendinginn afsökunar eftir að hafa svarað honum fullum hálsi á samfélagsmiðlum í kjölfar þess að hann gagnrýndi Sancho fyrir frammistöðu sína á æfingum.
Það er því allt útlit fyrir að Sancho verði seldur í janúarglugganum en United mun tapa hressilega á viðskiptunum.
United keypti Sancho sem fyrr segir á 73 milljónir punda sumarið 2021 en hann kom frá Dortmund.
Í enskum fjölmiðlum í dag er vakin athygli á því að samkvæmt Transfermarkt er Sancho í dag metinn á 27 milljónir punda. Upp á sitt besta var kappinn metinn á 113 milljónir punda og því um 86 milljóna punda hrun að ræða á um þremur árum.