Mikel Arteta, stjóri Arsenal, hefur tjáð sig um markvarðastöðuna í aðdraganda leiksins gegn Sevilla í Meistaradeild Evrópu í kvöld.
Liðin mætast í 3. umferð riðlakeppninnar en Arsenal þarf helst að fá eitthvað úr leiknum eftir tap gegn Lens í síðustu umferð.
David Raya gekk í raðir Arsenal frá Brentford í sumar og var ekki lengi að stela stöðu aðalmarkvarðar af Aaron Ramsdale sem hafði eignað sér stöðuna undanfarin tvö ár.
Eftir slæm mistök Raya sem leiddu til marks í leik gegn Chelsea um síðustu helgi hefur hins vegar orðið mikil umræða um hvort Ramsdale fái traustið gegn Sevilla.
„Mistök eiga sér stað í fótbolta,“ sagði Mikel Arteta um málið á blaðamannafundi í gær.
„Þetta er pressan við að spila hjá stórliði. Þú verður að vinna og vera upp á þitt besta, annars mun einhver ýta þér út.“
Leikurinn Sevilla og Arsenal fer fram á Spáni og hefst klukkan 19.