Micky van de Ven hefur staðfest það að hann hafi verið með önnur tilboð á borðinu í sumar áður en hann samdi við Tottenham.
Van de Ven ræddi við stórlið á borð við Liverpool og Bayern Munchen en ákvað að lokum að semja í London.
Það var í raun allt stjóra liðsins, Ange Postecoglou, að þakka en hann sannfærði Hollendinginn.
Van de Ven hafði engan áhuga á að vera varamaður hjá neinu félagi og spilar í dag stórt hlutverk hjá sínu nýja félagi.
,,Það er bara vegna samtalsins sem ég átti við Spurs. Það er mjög mikilvægt fyrir mig að heyra rétt orð frá þjálfaranum,“ sagði Van de Ven.
,,Þetta snerist um hvort ég myndi spila mikið, á mínum aldri er það mjög mikilvægt og Spurs gaf mér bestu tilfinninguna.“