Íslenska karlalandsliðið í flokki 21 árs og yngri vann dramatískan 0-1 sigur á Litháen í undankeppni EM 2025 í dag.
Íslenska liðið byrjaði leikinn mjög vel, skapaði sér mörg færi og voru þó nokkuð meira með boltann en heimamenn. Litháar áttu þó margar hættulegar skyndisóknir. Hvorugu liði tókst að skora í fyrri hálfleik og var því markalaust þegar liðin gengu inn í klefa.
Það dró heldur betur til tíðinda í seinni hálfleik, Davíð Snær Jóhannsson var skipt inn á á 65. mínútu og smellti boltanum svo snyrtilega í skeytin mínútu seinna. Íslendingar urðu manni fleiri á 70. mínútu en aðeins fjórum mínútum síðar fékk markmaður Íslands Lúkas Petersson rautt spjald og Litháar vítaspyrnu.
Adam Ingi Benediktsson kom inn í markið og gerði sér lítið fyrir, varði vítið og tryggði Íslandi sigur.
Eins og stendur situr íslenska liðið í efsta sæti riðilsins með sex stig og á einn leik til góða á hin lið riðilsins.