Rúnar gekk í raðir Arsenal árið 2020 en hefur þrisvar farið annað á lán, nú síðast til Cardiff í ensku B-deildinni.
„Það kom eiginlega ekki til greina að vera áfram hjá Arsenal. Ég hafði ekki áhuga á að sitja uppi í stúku, vera æfingamarkmaður eða þriðji markmaður. Ég er búinn að vera númer eitt hjá landsliðinu í einhvern tíma svo mér fannst þetta ekki tímapunkturinn til að kasta inn handklæðinu,“ sagði Rúnar við 433.is um ákvörðun sína að fara til Cardiff í sumar.
Rúnar kom inn í lið Arsenal á erfiðum tíma en hefur séð liðið vaxa og dafna og verða líklegasta liðið til að hampa Englandsmeistaratitlinum á eftir Manchester City.
„Ég sé ekki mun á Arteta. Hann er búinn að vera með sitt plan og hefur fylgt því. Hann er búinn að byggja upp geggjað lið.“
Rúnar var með Arsenal á undirbúningstímabilinu í ár. Þó að miklar breytingar hafi orðið á leikmannahópnum síðan 2020 hefur Arteta fylgt sömu áætlun frá byrjun að sögn Rúnars.
„Helsta breytingin er kannski á starfsliðinu og svo auðvitað leikmönnum. Það hafa margir farið út og margir inn.
Þetta hefur verið plan frá degi eitt og það er búið að vinna markvisst að því. Nú er liðið að bera ávöxt af því,“ sagði Rúnar.
Hann var að lokum spurður út í hvort hann teldi að Arsenal yrði Englandsmeistari í vor.
„Þeir eiga allavega góðan séns. Þeir byrja vel. Þeir hafa nú unnið City tvisvar sem er auðvitað samkeppnisaðili númer eitt svo það er ekkert sem segir að þeir geti ekki gert það.“
Ítarlegt viðtal við Rúnar er í spilaranum.