Yfirmenn dómara á Englandi ætla sér að birta hljóðbrot með samskiptum dómaranna í leik Tottenham og Liverpool á laugardag.
Forráðamenn Liverpool eru brjálaðir eftir að löglegt mark var tekið af þeim í tapi gegn Tottenham.
Luis Diaz var dæmdur rangstæður en var langt frá því að vera fyrir innan, dómarinn og VAR dómarinn segjast hafa misskilið hvorn annan.
Liverpool hefur krafist þess að samskipti þeirra verði birt, ekki voru allir sammála um hvort það væri rétt í hópi dómara.
Enskir miðlar segja hins vegar frá því í morgun að hljóðbrotið verði birt en ekki er komið á hreint hvort það verði í dag eða á næstu dögum.
Yfirmenn dómara eru enn að yfirfara málið en Liverpool hefur einnig áfrýjað rauðu spjaldi sem Curtis Jones fékk í leiknum.