Eins furðulegt og það gæti hljómað er Bayern Munchen líklega að semja aftur við varnarmanninn Jerome Boateng.
Frá þessu greinir blaðamaðurinn virti Florian Plettenberg en Boateng er samningslaus þessa stundina.
Boateng lék með Bayern í tíu ár og vann deildina níu sinnum en fór þaðan árið 2021 og samdi við Lyon í Frakklandi.
Hann hefur verið án félags síðan í sumar eftir að hafa leikið aðeins átta leiki með Lyon á síðustu leiktíð.
Bayern ku vera að fá Boateng aftur í sínar raðir tveimur árum seinna en hann á að leysa Matthijs de Ligt af hólmi sem er meiddur þessa stundina.
Boateng er 35 ára gamall og myndi aðeins fá samning hjá félaginu út tímabilið.