Goðsögnin Paolo Di Canio er ákveðinn í því að Weston McKennie sé ekki nógu góður leikmaður til að spila fyrir Juventus.
McKennie er bandarískur landsliðsmaður en hann var lánaður til Leeds síðasta vetur er liðið féll úr efstu deild á Englandi.
Það kom mörgum á óvart er McKennie fékk tækifæri hjá Juventus á þessari leiktíð en hann hefur komið við sögu í þónokkrum leikjum.
Það er eitthvað sem Di Canio skilur ekki en hann er á því máli að McKennie sé langt frá því að vera nógu góður til að byrja fyrir lið sem berst um titilinn á Ítalíu.
,,McKennie var lánaður til Leeds og hjálpaði liðinu að falla í næst efstu deild, er hann leikmaður sem hjálpar liðinu að vinna titilinn?“ sagði Di Canio.
,,Ég vil ekki eyðileggja leikmanninn og segja að hann sé ekki með gæðin en þú ert með Federico Gatti,Fabio Miretti og McKennie á miðjunni hjá Juventus.“
,,Hversu mörg lið myndu þessir leikmenn spila fyrir? Ekki bara lið sem vilja berjast um titilinn, eru þetta leikmenn sem byrja í leikjum í titilbaráttunni?“