Ryan Giggs fyrrum kantmaður Manchester United telur að Erik ten Hag hafi verið að reyna kveikja í Jadon Sancho með því að tala um hann opinberlega.
Allt er í bál og brand eftir að Ten Hag sagði um síðustu helgi að Sancho kæmist ekki í hóp, hann væri of latur á æfingum.
Sancho svaraði fyrir sig á samfélagsmiðlum og sagði þjálfarann ljúga, svona væru hlutirnir ekki eins og þjálfarinn héldi fram.
„Þetta virðist hafa verið hans síðasta tilraun til að kveikja í honum, að tala um hann opinberlega og sjá hvernig hann myndi svara því,“ segir Giggs.
„Utan frá þá virðist það vera þannig að Ten Hag hafi reynt allt með Sancho, þegar hann kom til félagsins þá var ég mjög spenntur.“
„Ég hélt að hann gæti orðið betri, myndi bæta sig. Hann hefur ekki gert það hjá félaginu, hann var ungur kantmaður sem tók alltaf réttar ákvarðanir. Sem er óvenjulegt.“