Vanda Sigurgeirsdóttir, formaður KSÍ vill ekki svara því hvort hún ætli að hætta sem formaður KSÍ þegar ársþing sambandsins fer fram á næsta ári.
433.is sendi fyrirspurn á Vöndu eftir að hafa fengið nokkrar ábendingar þess efnis að Vanda væri að íhuga það að gefa ekki kost á sér á næsta ársþingi.
Vanda var kjörinn til bráðabirgða haustið 2021 og vann svo frábæran sigur á ársþingi sambandsins árið 2022.
Formaður er aðeins kjörinn til tveggja ára og hefur blaðamaður átt nokkur samtöl við fólk í hreyfingunni sem rætt hefur málið við Vöndu. Hefur hún tjáð fólki að hún sé ekki búin að gera upp hug sinn.
„Mér finnst ekki tímabært að „kommenta“ á þetta núna, svona í byrjun september og þing í lok febrúar,“ segir Vanda í svari við fyrirspurn 433.is þess efnis.
Vanda er fyrsta konan sem gegnir embætti formanns KSÍ en ætla má að Vanda gefi það út á næstu vikum hvort hún ætli að hætta í starfinu eða sækjast eftir endurkjöri á ársþingi sambandsins á næsta ári.