Hinn 24 ára gamli Jón Dagur er í dag á mála hjá Leuven í Belgíu en árið 2018 var hann hjá Fulham í enska boltanum. Adam, sem er auðvitað leikmaður Vals í dag, heimsótti Jón Dag reglulega til London.
Hann segir í þættinum þegar þeir félagar fóru í spilavíti þar í borg.
„Það gekk ansi vel eitt kvöldið. Jón Dagur var sjóðandi heitur en það var einn sem var að spila við hliðina á okkur sem gekk hræðilega illa. Við tókum út peninginn, sem var slatti,“ segir Adam.
Við tók skrautleg atburðarrás.
„Á leiðinni út sjáum við manninn sem var að spila með okkur á borði elta okkur. Við vorum bara að pæla í hvað væri í gangi. Við fórum á McDonalds og þá var hann allt í einu þar líka. Ég segi bara: „Strákar, hann er að elta okkur.“ Hann sá náttúrulega hvað við tókum mikið út.“
Félagarnir redduðu sér þó úr þessu.
„Þetta endaði þannig að við komum okkur í Uber og fórum heim.
Daginn eftir hvarf þessi peningur á mettíma. Þetta var oftast þannig,“ segir Adam léttur að lokum.