Það kom mörgum á óvart þegar Manchester City ákvað að kaupa miðjumanninn Matheus Nunes frá Wolves í gær á lokadegi félagaskiptagluggans.
Englandsmeistararnir borga Wolves 52 milljónir punda fyrir Nunes sem var ekki frábær fyrir Wolves síðasta vetur líkt og flestir leikmenn liðsins.
Nunes var ákveðinn í því að komast til Man City og neitaði að æfa með liðinu um stund til að koma félagaskiptunum í gegn.
Matt Hobbs, yfirmaður knattspyrnumála Wolves, hefur gagnrýnt Nunes fyrir nákvæmlega það og segir hann hafa sýnt félagi sínu vanvirðingu.
Nunes er 25 ára gamall og kom til Wolves frá Sporting í fyrra og varð um leið dýrasti leikmaður í sögu félagsins.
,,Ég var mjög vonsvikinn með hvernig þetta endaði. Matheus þurfti ekki að bjóða upp á þessa hegðun en að lokum var þetta best fyrir alla,“ sagði Hobbs.
,,Matheus er gríðarlega hæfileikaríkur leikmaður en myndi sjálfur viðurkenna það að hann stóðst ekki væntingar á síðustu leiktíð. Tímabilið var þó erfitt fyrir allt liðið svo kannski fékk hann ekki tækifæri á að gera það.“