Bukayo Saka náði merkum áfanga í gær í sigri Arsenal á Crystal Palace.
Liðin mættust á Selhurst Park og vann Arsenal nauman 0-1 sigur eftir að hafa verið manni færri frá því um miðbik seinni hálfleiks. Martin Ödegaard gerði sigurmarkið af vítapunktinum.
Saka var að spila 82. úrvalsdeildarleik Arsenal í röð. Jafnaði hann þar með félagsmet Paul Merson.
Englendingurinn ungi hefur því spilað hvern einasta úrvalsdeildarleik Arsenal síðan 9. maí 2021.
Saka er einn besti kantmaður heims og þrátt fyrir að vera aðeins 21 árs gamall hefur hann verið lykilmaður Arsenal í nokkur ár.