Collette Roche rekstrarstjóri hjá Manchester United segir að félagið muni innan tíðar taka ákvörðun um framtíð Mason Greenwood hjá félaginu.
Greenwood hefur ekki æft eða spilað með United í átján mánuði eftir að unnusta hans sakaði hann um nauðgun og ofbeldi í nánu sambandi.
Málið var fellt niður fyrr á þessu ári og hefur Manchester United síðan skoðað málið hjá sér. Félagið hefur borgað Greenwood 10 milljónir á viku á meðan málið er í skoðun.
„Við höfum gert ítarlega rannsókn og spurt eins marga og hægt er um hvað gerðist og reynt að skilja meira um málið en það sem lögreglan skoðaði,“ sagði Roche.
„Það er eðlilegt að við ræðum þetta við hluthafa okkar en núna er það hjá okkur að taka ákvörðun. Það er bara okkar ákvörðun.“
Undanfarnar vikur hefur verið talað um að United ætli að gefa Greenwood annað tækifæri hjá félaginu en hann og unnusta hans eignuðust sitt fyrsta barn á dögunum.