Það verða Víkingur R. og KA sem leika til úrslita um Mjólkurbikar karla þetta árið. Þetta varð ljóst með sigri fyrrnefnda liðsins á KR í kvöld.
Sigur Víkings var nokkuð þægilegur. Aron Elís Þrándarson kom þeim yfir á 18. mínútu og skömmu síðar tvöfaldaði Erlingur Agnarsson forystuna.
Staðan í hálfleik 2-0 og útlitið gott fyrir Víking.
Benoný Breki Andrésson minnkaði muninn fyrir KR eftir um klukkutíma leik og allt opið á ný.
Ari Sigurpálsson kom hins vegar sterkur inn af bekknum og setti tvö, innsiglaði 4-1 sigur Víkings.
Víkingur er á leið enn einn bikarúrslitaleikinn en liðið hefur unnið keppnina þrjú skipti í röð.