Jóhann Berg Guðmundsson, landsliðsmaður og leikmaður Burnley í ensku úrvalsdeildinni, var í skemmtilegu viðtali við Þungavigtina í gær. Var hann meðal annars spurður út í Meistaradeildarbaráttuna á Englandi.
Jóhann er á leið inn í sitt áttunda tímabil með Burnley. Liðið er nú nýliði í ensku úrvalsdeildinni og spilar opnunarleikinn gegn Manchester City annað kvöld.
Í þættinum var Jóhann spurður út í hvaða lið hann telur að hafni í efstu fjórum sætum ensku úrvalsdeildarinnar og nái þar með Meistaradeildarsæti.
„Arsenal verður alltaf í topp fjórum, City líka. United verður þar og ég ætla að setja Chelsea líka,“ sagði Jóhann.
„Athyglisvert,“ sagði þáttastjórnandinn Ríkharð Óskar Guðnason eftir að nafn Chelsea kom upp.
„Kaldar kveðjur á Bítlaborgina en það er í góðu lagi í þessum þætti,“ skaut Kristján Óli Sigurðsson inn í og á þar auðvitað við að Jóhann hafi ekki sett Liverpool í topp fjóra.
Leikur Burnley og Manchester City fer fram á heimavelli fyrrnefnda liðsins og hefst klukkan 19 annað kvöld.