Það gæti farið svo að Willian spili ekki með Fulham á komandi leiktíð eftir allt saman. Áhugi er á honum frá Sádi-Arabíu.
Það eru aðeins um tvær vikur síðan Willian skrifaði undir nýjan samning við Fulham. Hann var einnig á mála hjá liðinu á síðustu leiktíð og um tíma leit út fyrir að hann færi á frjálsri sölu í sumar. Hafði hann til að mynda verið orðaður við Nottingham Forest.
Að lokum skrifaði hann þó undir til eins árs hjá Fulham.
Nú er Al Shabab í Sádi-Arabíu hins vegar að reyna að fá hann. Talið er að hann sé í viðræðum við félagið.
Willian myndi fjórfalda laun sín í Sádí, hækka laun sín í 200 þúsund pund úr 50 þúsund pundum. Þá myndi hann ekki þurfa að greiða skatta í Sádí.