Stan Collymore segir að Dean Henderson eigi að koma sér burt frá Manchester United í sumar.
Henderson verður að öllum líkindum varaskeifa fyrir Andre Onana ef hann verður áfram hjá United á næstu leiktíð, en Onana var keyptur frá Inter á dögunum.
Enski markvörðurinn hefur verið orðaður sterklega við Nottingham Forest, sem og Matt Turner markvörður Arsenal.
„Ef ég væri Nottingham Forest myndi ég kaupa Dean Henderson frekar en Matt Turner,“ segir Collymore, sem lék með Forest á ferlinum, auk Liverpool, Aston Villa og fleiri liða.
„Hann er reynslumeiri og hefur verið meira í kringum aðallið á Englandi. Hann þekkir það að keppa um stöðu markvarðar númer eitt hjá Manchester United og það sýnir að hann hefur mikið sjálfstraust.
Ef Henderson hefur einhvern metnað reynir hann að komast frá Manchester United og verða markvörður númer eitt hjá Forest.“