Gennaro Gattuso hefur tjáð sig um af hverju hann ákvað að ganga í raðir skoska félagsins Rangers árið 1997.
Það var ákvörðun sem faðir hans tók en Gattuso yngri hafði engan áhuga á að færa sig frá Ítalíu til Skotlands aðeins 17 ára gamall.
Gattuso átti síðar frábæran feril sem leikmaður AC Milan en hann var í eitt ár hjá Rangers og var síðar keyptur til Salernitana á fjórar milljónir punda.
,,Ég hafði engan áhuga á því að fara til Glasgow. Ég spilaði tvo leiki í Serie B og við tryggðum okkur sæti í Serie A með Perugia,“ sagði Gattuso.
,,Ég spilaði svo átta leiki í efstu deild án samnings og með ítalska U19 landsliðinu á EM. Einn daginn kemur faðir minn að mér og segir að það sé nýr samningur á borðinu frá Rangers.“
,,Ég vildi ekki fara og tjáði föður mínum það. Hann sagði mér að upphæðin væri alltof há, hann gat ekki einu sinni skrifað hana niður. Hann sagði að hún væri fjórum sinnum stærri en það sem hann hafði þénað á ævinni.“
,,Enn og aftur þá sagði ég nei en hann hótaði svo að kýla mig í andlitið ef ég myndi ekki samþykkja, þá ákvað ég að semja við Rangers. Ég fór til Glasgow, þekkti engann og kunni ekki tvö orð í ensku.“