Birnir Snær Ingason hefur átt frábært annað tímabil með Víkingi í sumar. Eins og fram kom fyrr í dag krotaði hann undir nýjan tveggja og hálfs árs samning við félagið í dag.
Hinn 26 ára gamli Birnir hefur skorað sex mörk og lagt upp jafnmörg í Bestu deildinni fyrir topplið Víkings. Hann segist hafa litið á þetta tímabil þannig að hann þyrfti að standa sig. Lagði kappinn mikið á sig á undirbúningstímabilinu í vetur.
„Ég ákvað að fara aðeins í ræktina og leggja meira á mig. Ég vissi að ég þyrfti að standa mig á þessu tímabili, annars yrðu menn ansi þreyttir. Menn voru reyndar orðnir ansi þreyttir en þetta tókst á endanum.
Ég skoraði í nokkrum leikjum í röð og þá fær maður mikið sjálfstraust. Með sjálfstraustið í botni getur maður gert allt.“
Ítarlega er rætt við Birni í spilaranum.