Angel Gomes, fyrrum undrabarn Manchester United, hefur tjáð sig um það hvernig það er að vinna með Jose Mourinho, fyrrum stjóra liðsins.
Gomes og Mourinho voru saman á Old Trafford en eru nú báðir farnir – Gomes leikur með Lille í Frakklandi og er Mourinho þjálfari Roma.
Það var alls ekki auðvelt fyrir Gomes sem var þá 17 ára gamall að vinna undir Mourinho og tjáir hann sig sjálfur um erfiðleikana.
,,Ég spilaði leik fyrir varaliðið og hann horfði á mig – hann taldi að ég hafi ekki spilað nógu vel,“ sagði Gomes.
,,Tveimur dögum seinna þá átti aðalliðið leik og hann ákvað að taka mig með. Fyrir leik þá ákvað hann að láta alla vita hvernig ég stóð mig.“
,,Þetta snerist allt um að vera andlega sterkur. Það sem ég komst að varðandi Jose er að hann vill alltaf að þú gerir betur. Það er eins og hann sé að reyna að espa þig upp, sýndu mér aðeins meira. Allir sögðu honum hversu góður ég væri en hann vildi sjá það.“
,,Ef þú ert ekki nógu góður þá lætur hann þig vita en ekki bara með því að segja þér það. Þú þarft að átta þig á því hvað hann vill, það gæti verið líkamstjáningin. Ég var 17 ára gamall og það var erfitt að taka þessu.“