Jason Daði Svanþórsson, leikmaður Breiðabliks, er eðlilega spenntur fyrir leik kvöldsins gegn FC Kaupmannahöfn í undankeppni Meistaradeildar Evrópu. Hann telur Blika eiga fína möguleika.
Blikar taka á móti dönsku meisturunum í FCK í kvöld á Kópavogsvelli og fer seinni leikurinn fram á Parken í næstu viku. Íslandsmeistararnir unnu Shamrock Rovers í fyrstu umferð og með því er ljóst að Blikar eru öruggir með umspilsleik um sæti í Sambandsdeildinni hið minnsta, þó svo að tap gegn FCK verði niðurstaðan.
„Það er mikil spenna, enda mikið undir,“ segir Jason við 433.is.
„Þetta er stórt lið með mikla sögu. En ef við spilum okkar leik hér á Kópavogsvelli held ég að flest lið verði í veseni með okkur.“
Jason segir að það henti Blikum vel að spila í deild og Evrópu í bland og að dagskráin sé þétt.
„Þetta gefur okkur mikla orku sem við höfum náð að taka inn í deildarleikina. Við æfum minna og spilum á þriggja daga fresti. Það er bara geggjað.“
Viðtalið í heild er í spilaranum.