Gjaldkerinn hjá knattspyrnudeild ÍA gerir líklega fátt annað en að telja peninga þessa dagana miðað við það sem er að koma í kassann.
Skagamenn eru sagðir fá um 500 milljónir króna eftir að Hákon Arnar Haraldsson var seldur frá FCK til Lille í vikunni.
Lille borgaði 2,2 milljarð fyrir Hákon en Lille keypti svo Hauk Andra Haraldsson, bróðir hans. Samkvæmt Kristjáni Óla Sigurðssyni fær ÍA 40 milljónir fyrir Hauk.
„Þeir seldu Hauk fyrir 40 milljónir króna, Daníel Ingi fór á 30 milljónir til Nordsjælland. Lille kaupir á Hauk á 40 kúlur, þeir fá bara 5 prósent af endursölunni þar. Þeir fá 15 prósent af sölunni á Daníel,“ segir Kristján Óli.
Daníel Ingi Jóhannesosn var seldur fyrr í sumar og því virðast um 600 milljónir króna á leið á bankabók Skagamanna sem ætti að gera reksturinn auðveldan næstu árin hjá ÍA.