Saksóknari í Manchester hefur fellt niður mál gegn Ryan Giggs þar sem hann var sakaður um gróft ofbeldi í nánu sambandi.
Málið átti að fara fyrir dóm í lok júlí en saksóknari ákvað að fara ekki með málið lengra og felldi það niður.
Giggs var sakaður um líkamlegt ofbeldi sem átti að hafa átt sér stað árið 2020. Þá var Giggs sakaður um að beita Kate Greville, fyrrverandi kærustu sína, andlegu ofbeldi á árunum 2017-2020.
Giggs hélt alltaf fram sakleysi sínu en nú er ljóst að málið fer ekki lengra í kerfinu.
Giggs hætti sem landsliðsþjálfari Wales vegna málsins. Hann steig til hliðar í lok árs 2020 en sagði svo endanlega af sér þegar málið hélt áfram.