Sigurður Kristinn Pálsson, framkvæmdarstjóri knattspyrnudeildar Vals segir engar formlegar viðræður vera í gangi við Gylfa Þór Sigurðsson um að ganga í raðir félagsins.
Gylfi Þór hefur æft með Val að undanförnu en þessi magnaði knattspyrnumaður hefur ekki spilað fótbolta í rúm tvö ár. Mál hans í Bretlandi var fellt niður í maí þar sem engar líkur voru taldar á sakfellingu.
Gylfi hefur átt í viðræðum við DC United í Bandaríkjunum en samkvæmt heimildum 433.is er það orðið ólíklegt að hann semji við bandaríska félagið eins og staðan er í dag.
Félagaskiptaglugginn á Íslandi opnar á morgun en Sigurður segist ekki vita til þess að Gylfi sé að skrifa undir hjá Val á næstu dögum þó sú saga fljúgi ansi hátt þessa dagana.
„Ég veit ekki neitt, ég vissi bara að hann mætti á eina æfingu og svo á aðra æfingu og hefur verið eitthvað smá meiddur. Ég veit ekki meira, ég veit ekki hvort hann hafi verið á síðustu æfingum,“ segir Sigurður í samtali við 433.is.
Sigurður segir ekki neinar formlegar samningaviðræður vera í gangi.
„Ekki neitt svoleiðis, það er svo bara stjórnin sem fer með þessi mál,“ sagði Sigurður og benti á Edvard Börk Edvardsson formann stjórnar sem ekki svaraði símanum þegar blaðamaður hafði samband.
Gylfi Þór verður 34 ára gamall á þessu ári en hann hefur einnig verið orðaður við lið í Katar. Taki hann fram fótboltaskóna er þó staðan sú í dag að líklegast verður það á Íslandi.
Ljóst er að áhuginn á Bestu deildinni myndi rjúka upp með komu Gylfa sem er besti landsliðsmaður í sögu Íslands. Age Hareide, landsliðsþjálfari Íslands hefur svo opnað dyrnar fyrir endurkomu Gylfa reimi hann á sig takkaskóna á nýjan leik og byrji að spila.