„Þetta var ekki nógu gott. Það var leiðinlegt að fá svona marga á völlinn og ná ekki sigri. Það er margt sem við mættum bæta. Við áttum góð færi en náðum ekki að nýta þau. Ég er frekar svekkt,“ sagði Karólína Lea Vilhjálmsdóttir landsliðskona við 433.is eftir tap Íslands gegn Finnlandi í kvöld.
Liðin mættust í vináttulandsleik í Laugardal og vann finnska liðið 1-2 sigur.
„Við erum vanar að ná að nýta þessi færi og fá ekki svona auðveld mörk á okkur. Þetta var ólíkt okkur en þetta eru æfingaleikir og það má misstíga sig í þeim.
Við vorum aðeins of seinar í öll návígi og þær skora mark upp úr því að við náum ekki að klukka. Við eigum að verjast þessu betur.“
Það voru meira en sex þúsund manns á leiknum og mikil stemning. Fjöldi fótboltastelpna var mættur frá Símamótinu sem fer fram um helgina.
„Það var ekkert smá gaman að fá svona marga á völlinn og þær voru öskrandi allan tímann. Maður er þakklátur fyrir það. Það er grátlegt að ná ekki að vinna þetta fyrir þær.“
Karólína gekk á dögunum í raðir Bayer Leverkusen á láni frá Bayern Munchen.
„Þetta er gott skref fyrir mig. Ég þarf að spila meira, koma mér í leikform og fá smá traust til að bæta mig sem leikmann. Ég held og vona að þetta sé rétt skref,“ sagði Karólína Lea Vilhjálmsdóttir í kvöld.
Viðtalið í heild er hér að neðan.