Íslenska kvennalandsliðið mætir því finnska í vináttulandsleik hér heima á morgun. Landsliðsfyrirliðinn Glódís Perla Viggósdóttir er spennt fyrir leiknum.
„Þetta leggst ótrúlega vel í mig. Ég er spennt að spila hér á heimavelli,“ segir Glódís.
Leikurinn á morgun er fyrri leikurinn í þessum landsleikjaglugga en Ísland mætir Austurríki ytra á þriðjudag.
„Fyrst og fremst er þetta undirbúningur þannig við horfum mikið í frammistöðuna. En við förum alltaf í leiki til að vinna.
Við vonum að það komi mikið af fólki og að það verði góð stemning.“
Glódís átti frábært tímabil með Bayern Munchen og varð meistari með liðinu. Hún var í kjölfarið orðuð við Arsenal en er ekki á förum.
„Ég er ótrúlega sátt með þetta. Það er gaman eftir tímabilið að horfa til baka, sjá hvar við byrjuðum og svo enduðum. Við höldum áfram að byggja ofan á þetta á næsta tímabili.
Ég er áfram með samning og líður ótrúlega vel í Bayern Munchen. Það er ekkert í gangi og ég fer í undirbúningstímabil með liðinu eftir Austurríkisleikinn.“
Viðtalið í heild er í spilaranum.