Alex Freyr Elísson er búinn að skrifa undir hjá KA og kemur til liðsins á láni frá Breiðablik. Þetta staðfestir hann í samtali við 433.is.
Alex Freyr var að klára að horfa á leik KA gegn Connah’s Quay Nomads í Sambandsdeildinni og ferðast með liðinu á Akureyri í kvöld.
„Ég er bara virkilega spenntur, þetta er góð lending. Bara mjög heppin að fá þetta tækifæri,“ segir Alex Freyr í samtali við 433.is.
Alex Freyr gekk í raðir Íslandsmeistara Blika frá Fram í vetur en hefur ekki tekist að brjóta sér leið inn í byrjunarliðið.
Kappinn hefur aðeins komið við sögu í fjórum leikjum í Bestu deildinni það sem af er sumri. Þá var hann oft ekki í leikmannahópi Blika.
„Ég get ekki beðið eftir því að fá að spila aftur og finna ástríðuna fyrir fótboltanum,“ segir bakvörðurinn knái.