Ein af stjörnum Sambíu í fótboltanum segir að þjálfari liðsins hafi reglulega brotið kynferðislega á leikmönnum liðsins. Kemur þetta fram nú þegar Sambía er að undirbúa sig undir Heimsmeistaramótið í Nýja Sjálandi og Ástralíu.
Bruce Mwape sem er 63 ára gamall er sakaður um að þvinga leikmenn til þess að stunda kynlíf með sér, ætli þær sér að halda sæti sínu í liðinu.
Mwape hafnar þessum ásökunum en FIFA og knattspyrnusamband Sambíu tóku málið fyrir á síðasta ári.
„Ef þjálfarinn vill sofa hjá þér þá verður þú að segja já,“ segir einn leikmaður liðsins í samtali við Guardian, hún vill halda sæti sínu í liðinu og vill því ekki láta nafn síns getið.
„Það er mjög eðlilegt í okkar liði að þjálfarinn stundi kynlíf með leikmönnum.“
Fleiri þjálfarar hjá Sambíu liggja undir grun fyrir svipuð brot og er þjálfari U17 ára landsliðs kvenna sagður beita sömu reglum við sína leikmenn. Er málið litið mjög alvarlegum augum en knattspyrnusamband Sambíu vill þó lítið gera úr því.