„Án nokkurs vafa, þá hefur þetta enn áhrif á mig,“ sagði David Beckham á ráðstefnu í vikunni þegar hann var beðinn um að ræða atvikið frá Heimsmeistaramótinu árið 1998. Ungur og óreyndur Beckham lét reka sig af velli í átta liða úrslitum.
Beckham sparkaði þá í átt að Diego Simeone og var rekinn af velli, England féll úr leik og Beckham var gerður að skúrki í öllum helstu fjölmiðlum Englands.
Beckham bárust líflátshótanir og fleira. „Ég er að reyna að brotna ekki niður þegar ég ræði þetta, en ég var virkilega hræddur á þessum tíma,“ segir Beckham.
„Afi minn hringdi í mig og sagði að það væri fólk að berja á hurðina hjá sér og segja ég hefði svikið alla þjóðina og fjölskyldu mína. Hann vildi vita hvað hann ætti að segja.“
Dagarnir og mánuðirnir eftir rauða spjaldið voru svo erfiðir. „Ég gat ekki keyrt um London, ég gat ekki farið í göngutúr, ég gat ekki farið á veitingastaði, ég gat ekki farið á barinn. Vinir mínir vildu ekki vera með mér úti.“
„Þeir vissu að það yrði ráðist að okkur, ef ég stoppaði á rauðu ljósi var lamið í bílinn minn og hrækt á hann.“
„Þetta gerðist daglega í nokkur ár á eftir.“