Manchester City er komið í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu í annað sinn á þremur árum eftir afar sannfærandi sigur á Real Madrid í kvöld.
Liðin mættust í seinni leik sínum í undanúrslitum. Fyrri leiknum lauk með 1-1 jafntefli í Madríd.
Það kom fljótt í ljós í hvað stefndi. Bernardo Silva kom City yfir á 23. mínútu. Stundarfjórðungi síðar var hann aftur á ferðinni með mark.
Staðan í hálfleik 2-0 og heimamenn afar sannfærandi.
Úrslitin voru endanlega ráðin þegar Eder Militao setti boltann í eigið net á 76. mínútu.
Til að bæta gráu ofan á svart skoraði Julian Alvarez fjórða mark City í uppbótartíma.
Lokatölur 4-0. Samanlagt 5-1.
City mætir Inter í úrslitaleiknum í Istanbúl. Liðið getur þar unnið keppnina í fyrsta skiptið í sögunni.