Piers Morgan er einn frægasti stuðningsmaður Arsenal og tjáir sig reglulega um liðið á opinberum vettvangi. Hann hjólaði í sína menn eftir tap í gær.
Arsenal tapaði 0-3 gegn Brighton á heimavelli í gær. Nú er von liðsins um að hampa Englandsmeistaratitlinum svo gott sem úti. Manchester City þarf einn sigur í síðustu þremur leikjum sínum til að verja titilinn.
„Nú er þetta búið,“ skrifar Morgan á Twitter.
Hann heldur áfram og skefur alls ekki af því.
„Við vorum yfirspilaðir af liði sem er nýbúið að tapa 1-5 fyrir Everton.
Þetta var andlaus, ástíðulaus og aumkunarverð frammistaða sem kórónar hræðilegan kafla á tímabili sem lofaði svo góðu.“
Eftir frábært tímabil lengst af hefur Arsenal aðeins unnið tvo af síðustu sjö leikjum í ensku úrvalsdeildinni. City nýtti sér það og er heldur betur komið í bílstjórasætið um að vinna titilinn þriðja árið í röð.