Það er líklegt að Alexis Mac Allister sé á förum frá Brighton í sumar. Liverpool er talið leiða kapphlaupið en nýjustu fregnir gætu sett babb í bátinn.
Mac Allister, sem er 24 ára gamall, hefur átt frábært tímabil með Brighton. Hann hefur skorað 12 mörk og lagt upp 2 í öllum keppnum.
Þá heillaði Argentínumaðurinn mikið er hans lið varð heimsmeistari í Katar fyrir áramót.
Samningur Mac Allister við Brighton rennur út eftir tvö ár en félagið er opið fyrir því að selja hann í sumar.
Liverpool er líklegur áfangastaður. Liðið hefur sárvantað sterkari miðjumenn á leiktíðinni. Þá eru James Milner, Naby Keita og Alex Oxlade-Chamberlain allir á förum.
Samkvæmt frétt The Athletic vill Mac Allister hins vegar spila í Meistaradeild Evrópu á næstu leiktíð.
Þó svo að Liverpool hafi tekið við sér undanfarnar vikur er ólíklegt að liðið nái Meistaradeildarsæti fyrir næstu leiktíð. Lærisveinar Jurgen Klopp eru í fimmta sæti, 4 stigum á eftir Manchester United þegar þrjár umferðir eru eftir.