Edin Terzic, stjóri Dortmund, hefur tjáð sig um sögusagnirnar að Jude Bellingham sé á leið til Real Madrid.
Dortmund er þekkt fyrir það að selja sínar helstu stjörnur og má nefna Erling Haaland sem fór til Manchester City og Jadon Sancho sem fór til Manchester United.
Það eru þó ekki einu dæmin en leikmenn eins og Mats Hummels, Robert Lewandowski og Mario Götze sömdu til að mynda allir við Bayern Munchen.
Búist er við að Englendingurinn Bellingham snúi heim í sumar en Real Madrid hefur þó einnig gríðarlegan áhuga á miðjumanninum.
,,Nú koma fréttirnar frá Spáni en áður þá komu þær frá Englandi og fyrir það jafnvel frá Frakklandi,“ sagði Terzic.
,,Á síðasta ári var þetta Erling og fyrir það var það Jadon [Sancho]. Við höfum þurft að heyra þetta mikið síðustu ár.“
,,Jude kemur hingað á hverjum degi og gefur allt í sölurnar svo við getum unnið meistaratitilinn. Ég hef ekki heyrt að hann sé í viðræðum við annað félag.“