Heimsmeistarinn Emi Martinez virðist ekki á förum frá Aston Villa. Hann er virkilega ánægður hjá félaginu.
Hinn þrítugi Martinez gekk í raðir Villa árið 2020 frá Arsenal. Hann hefur verið frábær fyrir liðið og stundum verið orðaður við stærri félög.
Markvörðurinn virðist hins vegar ekki vera að hugsa sér til hreyfings.
„Aston Villa er risastórt félag. Ég er stoltur af því að spila hér, mjög stoltur.
Er ég á förum? Ég elska að vera hérna. Mér líður svo vel,“ segir Martinez, sem er samningsbundinn Villa í fjögur ár til viðbótar.
Liðið hefur verið að gera frábæra hluti frá því Unai Emery tók við sem knattspyrnustjóri og er í hörkubaráttu um Evrópusætin í ensku úrvalsdeildinni. Martinez vill frekar hjálpa Villa við að bæta í en að fara.
„Ég er að reyna að fá vini mína til Villa, Argentínumennina.“