Tveir leikir fóru fram í A-deild Lengjubikars karla í kvöld. Bikarmeistarar Víkinga unnu góðan sigur á Fram og á Hlíðarenda höfðu Valsarar betur gegn Lengjudeildarliði Vestra.
Það var Matthías Vilhjálmsson sem kom Víkingum yfir gegn Fram með marki á 16.mínútu leiksins.
Þannig stóðu leikar allt þar til á 32. mínútu þegar að Daninn Nikolaj Hansen tvöfaldaði forystu Víkinga og kom þeim í stöðuna 2-0.
Þetta reyndust hálfleikstölur í leiknum.
Víkingar bættu síðan við einu marki í seinni hálfleik og fóru að lokum með 3-0 sigur af hólmi heim í Víkina.
Víkingar sitja á toppi þriðja riðils í A-deild Lengjubikarsins eftir þrjá leiki.
Framarar eru í 3. sæti með fjögur stig eftir þrjá leiki.
Á Origovellinum að Hlíðarenda tóku heimamenn í Val á móti Vestra. Valsmenn fóru með 3-0 sigur í þeim leik og komu tvö fyrstu mörkin skömmu fyrir hálfleik.
Valsmenn sitja í efsta sæti í fyrsta riðli A-deildar eftir fyrstu þrjá leiki sína með fullt hús stiga.
Vestramenn eru án stiga eftir tvö töp í fyrstu tveimur leikjum sínum.