Hákon Arnar Haraldsson, atvinnumaður í knattspyrnu hjá FC Kaupmannahöfn var gestur í Íþróttavikunni með Benna Bó sem var á dagskrá Hringbrautar á föstudaginn síðatliðinn. Þar fór Hákon, sem vakið hefur verðskuldaða athygli með FC Kaupmannahöfn og íslenska landsliðinu, vel yfir sviðið.
Hákon fór ungur að árum frá Skaganum til Kaupmannahafnar og nú er hann orðinn reglulegur byrjunarliðsmaður hjá félaginu. Benedikt Bóas, umsjónarmaður Íþróttavikunnar, hjó eftir því í viðtali á dögunum, hversu góður Hákon er orðinn að tjá sig á dönsku.
Varstu alltaf sleipur í dönskunni?
„Nei það er nefnilega málið, mér fannst alltaf ógeðslega leiðinlegt í dönsku í skóla. Helst hefði ég verið til í að fara bara ekkert yfir höfuð í dönskutímana.
Kennarinn minn sagði akkúrat við mig á sínum tíma að ég myndi þurfa að nota dönskuna í framtíðinni og ég sagði bara á móti ´gleymdu því´
Núna er ég búinn að vera hérna í Kaupmannahöfn í þrjú ár og kann hana mjög vel.“
Þrátt fyrir að Hákon sé orðinn sleipur í dönskunni, þá eiga heimamenn stundum erfitt með að skilja hana.
„Danirnir eiga stundum erfitt með að skilja hvað ég er að segja. Danskan er samt sem áður að mörgu leiti lík íslenskunni, ákveðin orð eru afar lík íslenskum orðum. Ef maður kemst yfir framburðinn og það hvernig á að tala dönskuna, þá er eftirleikurinn auðveldur.“
Hákon Arnar hefur klifið upp metorðastigann hjá FC Kaupmannahöfn, byrjað í yngri liðum félagsins og nú er hann fastamaður í aðalliðinu. Þar er haldið vel utan um hann.
„Það hefur verið vel hugsað um mig öll árin sem ég hef verið hérna. Þegar að ég gekk í raðir félagsins var passað upp á að ég fengi góða íbúð og allt svoleiðis.“
Svo eru gerðar kröfur á leikmenn utan vallar.
„Félagið gerir kröfu á að við göngum í skóla og hegðum okkur almennilega utan vallar. Ef þú hagar þér ekki almennilega, þá ert þú ekkert að fara vera í liðinu. Maður þarf að vera almennilegur og á móti mun félagið þá hugsa vel um þig.“
Benedikt Bóas rifjaði þá upp atvik sem fór eins og eldur um sinu á samfélagsmiðlum en á myndbandi sem tekið var upp í búningsklefa FC Kaupmannahafnar eftir leik í Evrópkeppni mátti sjá Hákon Arnar, auk Ísaks Bergmanns Jóhannessonar liðsfélaga hans taka til í klefanum og skúra hann eftir leik.
Þó svo að athyglin sem leikmennirnir fengu í kjölfarið hafi verið mikil, þá var það ekki eitthvað sem Hákon Arnar var að velta sér upp úr.
„Ég var ekkert að spá í þessu og vissi ekki hversu margar spilanir myndbandið hafði í raun og veru fengið. Það var bara mamma sem sýndi mér það, hún var mest stolt af mér.