Á vefmiðlinum Mirror er farið ítarlega yfir stöðu portúgölsku knattspyrnugoðsagnarinnar, Cristiano Ronaldo hjá sádi-arabíska liðinu Al-Nassr og varpað ljósi á tvær stórar breytingar sem hann hefur staðið fyrir hjá félaginu á sínum stutta tíma þar.
Hinn 38 ára gamli Ronaldo er farinn að skora reglulega fyrir Al-Nassr þessa dagana en framlag hans til félagsins felst ekki eingöngu í markaskorun.
Mirror greinir frá því að með komu Ronaldo til félagsins í upphafi árs hafi átt sér stað miklar breytingar, meðal annars hvað varðar mataræði leikmanna félagsins sem og gæðastigið á æfingum liðsins.
Ronaldo hafi, með reynslu sinni frá stærsta sviði knattspyrnuheimsins, hjálpað liðsfélögum sínum að bæta mataræði sitt sem og að æfa af meiri krafti.
Jose Blesa er sérstakur næringarfræðingur Al-Nassr og í samtali við spænska staðarblaðið Ideal varpar hann ljósi á áhrif Ronaldo innan Al-Nassr.
,,Ég var fullviss um það hvað hann myndi koma með inn í félagið í kjölfar félagsskiptanna, vissi hvernig það ætti eftir að vera að vinna með honum og vissi að hann myndi leiða til mikilla breytinga. Ég hef ekki starfað með eins miklum atvinnumanni og honum.“
Hægt sé að draga lærdóm af hvaða einasta samtali við Ronaldo.
,,Hann er fyrstur til þess að mæta á æfingar og síðastur til þess að fara. Það er yndislegt að starfa með honum.“
Mið innkomu hans í leikmannahóp Al-Nassr hafi átt sér stað breytingar.
,,Leikmennirnir hafa æft af meiri krafti og fylgt eftir strangara mataræði.“
Það skili sér í minni fituprósentu leikmanna, þeir hafi að sama skapi bætt á sig vöðvamassa og æfi af miklum krafti.