Brahim Diaz er nálægt því að gera nýjan langtímasamning við Real Madrid. The Athletic greinir frá þessu.
Hinn 23 ára gamli Diaz hefur verið á mála hjá Real Madrid síðan í janúar 2019, en hann kom frá Manchester City.
Spænski kantmaðurinn hefur hins vegar ekki verið inni í myndinni hjá Real Madrid frá komu sinni og er á sínu þriðja tímabili á láni hjá AC Milan.
Þar hefur hann heillað undanfarið. Kappinn skoraði til að mynda sigurmark Milan gegn Tottenham í Meistaradeild Evrópu í vikunni.
Real Madrid horfir klárlega á Diaz sem leikmann fyrir framtíðina og er því að framlengja við hann til 2027.
Diaz á að baki einn leik fyrir spænska A-landsliðið.